Karellen

Í Flataskóla er starfrækt 4-5 ára leikskóladeild í suðurálmu byggingarinnar. Tveir leikskólakennarar starfa við deildina og stýra þeir faglegu starfi deildarinnar.

Lögð áhersla á útiveru, heilbrigði og vellíðan þar sem börnum þarf að líða vel til þess að nám geti átt sér stað. Fjölbreytileiki er hafður að leiðarljósi í dagsskipulaginu. Mikið er lagt upp úr sjálfshjálp, sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni efld meðal barnanna því þau læra best með því að gera hlutina sjálf og fá að gera mistök á leiðinni. Börnin fá tækifæri til að hafa áhrif á það hvað er gert og hvernig og æfa þannig mannréttindi og lýðræði í leiðinni.

Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) segir að leikurinn sé hornsteinn leikskólastarfsins og mikilvægasta náms- og þroskaleið barnsins. Í gegnum leik fær barnið tækifæri til að tjá sig, þroskast í samskiptum við önnur börn og styrkja félagslega færni. Þess er gætt að börnin fái næg tækifæri til leiks í sjálfsprottnum leik, vali og í stýrðum verkefnum eða hlutbundinni vinnu þar sem unnið er með bókstafi, hljóð og stærðfræði í gegnum leik. Lestrarstundir eru daglega eða oftar og mikið lagt upp úr því að börnin öðlist skilning á innihaldi bókanna. Börnin fá tækifæri til að æfa lýðræði og hafa áhrif á hvað og hvernig hlutirnir eru gerðir. Vikulega eru gönguferðir um nánasta umhverfi og jafnvel strætóferðir á nýja staði. Farið er í menningarferðir á höfuðborgarsvæðinu og einnig í heimsóknir á söfn og þær sýningar sem eru í boði fyrir leikskólabörn hverju sinni.

Unnið er með grunnþætti menntunar samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla sem eru eftirfarandi: Læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og vellíðan, sköpun. Grunnþættirnir lita allt starfið og eru okkar leiðarljós í öllu starfi með börnunum.

Þar sem leikskóladeildin er í sama húsnæði og grunnskólinn veitir það góð tækifæri til að brúa bilið á milli skólastiga. Starfið í leikskóladeildinni samtvinnast markvisst við grunnskólann og taka börnin þátt í morgunsamveru tvisvar í viku með öllum bekkjum grunnskólans. Auk þess taka þau þátt í fjölvali vikulega með 1.-3. bekk þar sem börnin velja sér stöð eftir áhugasviði og fá þannig tækifæri til að vinna með ólíkum aldurshópum og kynnast skólahúsnæðinu betur. Rýmið í leikskóladeildinni er mjög rúmgott og er notast við sérstakt leikskólaútisvæði sem er afmarkað. Einnig blandast leikskólabörnin eldri nemendum í útiveru á ýmsum útisvæðum við skólann.

Í leikskóladeild Flataskóla er faglegt og metnaðarfullt starf og er deildin opin á sama hátt og aðrir leikskólar í Garðabæ eða allt árið.

© 2016 - 2023 Karellen