Í Flataskóla er starfrækt 4-5 ára leikskóladeild í suðurálmu byggingarinnar. Hátt hlutfall fagfólks er á deildinni en þar starfa þrír leikskólakennarar sem stýra starfinu ásamt nokkrum leiðbeinendum.
Aðalnámskrá leikskóla
4-5 ára deildin er umfram allt leikskóladeild og vinnur með grunnþætti menntunar samkvæmt Aðalnámskrá leikskóla sem eru eftirfarandi: Læsi, sjálfbærni, lýðræði og mannréttindi, heilbrigði og vellíðan, sköpun. Grunnþættirnir lita allt starfið og eru okkar leiðarljós í öllu starfi með börnunum.
Heilbrigði og vellíðan
Lögð áhersla á útiveru, heilbrigði og vellíðan þar sem börnum þarf að líða vel til þess að nám geti átt sér stað.
Sjálfstæði
Mikið er lagt upp úr sjálfshjálp, sjálfstæði og sjálfsbjargarviðleitni efld meðal barnanna því þau læra best með því að fá að gera hlutina sjálf og gera mistök á leiðinni. Börnin fá tækifæri til að að hafa áhrif á starfið og æfa þannig lýðræði og mannréttindi.
Leikurinn sem náms- og þroskaleið
Í Aðalnámskrá leikskóla (2011) segir að leikurinn sé hornsteinn leikskólastarfsins og mikilvægasta náms- og þroskaleið barnsins. Í gegnum leik fær barnið tækifæri til að tjá sig, þroskast í samskiptum við önnur börn og styrkja félagslega færni. Þess er gætt að börnin fái næg tækifæri til leiks í sjálfsprottnum leik inni og úti, í vali og í stýrðum verkefnum eða hlutbundinni vinnu þar sem unnið er með bókstafi, hljóð og stærðfræði í gegnum leik. Lestrarstundir eru daglega og er mikið lagt upp úr því að börnin öðlist skilning á innihaldi bókanna.
Vettvangsferðir
Vikulega er farið í vettvangsferðir í nánasta umhverfi og einnig er farið í strætó á nýja og spennandi staði. Farið er í menningarferðir á höfuðborgarsvæðinu og einnig í heimsóknir á söfn og þær sýningar sem eru í boði fyrir leikskólabörn hverju sinni.
Snemmbær aðlögun að grunnskólastarfi
Þar sem leikskóladeildin er í sama húsnæði og grunnskólinn veitir það góð tækifæri til að brúa bilið á milli skólastiga. Starfið í leikskóladeildinni samtvinnast markvisst við grunnskólann og taka börnin þátt í morgunsamveru tvisvar í viku með öllum bekkjum grunnskólans. Auk þess taka þau þátt í fjölvali vikulega með 1.-2. bekk þar sem börnin velja sér stöð eftir áhugasviði og fá þannig tækifæri til að vinna með ólíkum aldurshópum, kynnast öðrum kennurum og skólahúsnæðinu betur. Leikskóladeildin notar afgirt útisvæði en einnig önnur spennandi svæði á skólalóðinni eins og kostur er. Börnin eru ávallt í gulum vestum svo hægt sé að aðgreina þau auðveldlega frá öðrum nemendum.
Snemmbæra aðlögunin að grunnskólastarfinu gefur börnunum ýmis tækifæri til að kynnast starfsfólki grunnskólans, húsnæðinu og útisvæðinu og veitir það þeim mikið öryggi þegar þau hefja nám í 1.bekk.
Leikskóladeild Flataskóla er opin á sama hátt og aðrir leikskólar í Garðabæ eða allt árið.